Undanfarið höfum við á Fjörudeild unnið mikið í ferilmöppunum okkar. Kisuhópur byrjaði fyrir nokkru að vinna verkefni um tröll og það hefur gengið mjög vel. Tengt því verkefni hafa verið lesnar ýmsar tröllasögur eins og Ástarsaga úr fjöllunum í samverustundum. Börnin hafa einnig sagt okkur frá tröllum sem oft virðast leynast á ýmsum stöðum.
Fyrir nokkru hófu börnin að segja stuttar sögur sem hengdar voru upp í fataklefanum. Þessar sögur hafa vakið mikla lukku og munum við halda áfram að spreyta okkur í sögugerð.
Í salnum hafa verið skipulagðar hreyfistundir undanfarna mánudaga. Þá höfum við æft okkur að hoppa, skríða, henda og grípa bolta ásamt öðrum skemmtilegum æfingum. Þetta finnst börnunum mjög skemmtilegt og eru þau orðin nokkuð brött í æfingunum.
Nokkur börn af deildinni fóru með Öldudeild og Bárudeild að sjá nýju sýningu Skoppu og Skrítlu um daginn. Farið var með strætó að Þjóðleikhúsinu og ferðin tókst mjög vel. Börnunum þótti sýningin skemmtileg og er hún í hæfilegri lengd fyrir börnin.
Allir bíða spenntir eftir sumrinu og sólinni og veðrið hefur verið ágætt. Við höfum verið meira úti og munum halda því áfram.
Bestu kveðjur, allir á Fjörudeild.