Föstudaginn 12. ágúst skelltu krakkarnir á Bárudeild, ásamt kennurum, sér í göngutúr með nesti og nýja skó. Ferðinni var heitið á Lynghagaróló sem er að barnanna sögn ótrúlega skemmtilegur róló.
Þar eru bæði hefðbundin leiktæki eins og kastali, sandkassi og rólur en svo eru líka skemmtileg leiktæki sem ekki finnast á öllum venjulegum rólóum. Sólin geislaði á okkur allan tíman og nokkrar nýjar freknur litu dagsins ljós á börnum sem og kennurum. Hildur kokkur hafði svo smurt ofaní okkur nesti, rúgbrauð með osti og svala ásamt ljúffengri vatnsmelónu, og þar af leiðandi var hægt að snæða úti á róló sem var ekkert lítið spennandi. Á heimleiðinni gengum við Ægisíðuna og vöktu steypufiskarnir mikla athygli og veltu því sumir fyrir sér hvort þetta væri alvöru fiskar en aðrir sögðu að þetta væri nú bara listaverk. Myndir frá gönguferðinni má sjá á myndasíðunni okkar.